Samræmd próf skaða samfélagið

Hvernig fólk viljum við útskrifa úr skólum? Hvert er meginmarkmið menntunnar? Ætti það kannski að vera að útskrifa fólk sem getur gert nýja hluti, ekki bara endurtekið það sem fyrri kynslóðir hafa gert – fólk sem er skapandi, hugmyndaríkt og uppgötvandi, sem getur gagnrýnt og sannreynt, í stað þess að taka við og samþykkja allt sem því er boðið? Eða er markmiðið að framleiða „samkeppnishæft vinnuafl“ fyrir atvinnulífið í þeirri mynd sem það er í dag?

 

 

 

 

 

 

 

Ég hef reynt að kenna of mörgum „góðum“ nemendum stærðfræði, nemendum með háar einkunnir á samræmdum prófum, sem kunna í raun og veru lítið nema að reikna stöðluð skólaverkefni, dæmi „alveg eins og í bókinni“. Stærðfræði hefur litla merkingu fyrir þau, og þau geta lítið gert með hana, hún er ekki lifandi eða frjó í hugsun þeirra og veitir þeim litla gleði.

Ég hef lengi reynt að fá botn í það til hvers þessi próf eru. Hvaða mikilvægu markmiðum hefur verið náð með samræmdu prófunum sem nú hafa verið haldin í um 30 ár? Sumir nefna það sem einskonar agatæki fyrir kennara, þannig að upp komist um lélega kennara sem sinna ekki starfi sínu. Nefndar eru hryllingssögur af kennurum sem mæta aldrei til vinnu nema of seint og illa haldnir af timburmönnum. Ég kalla það lélega skólastjórnendur sem þurfa samræmd próf að loknum vetri til að uppgötva slíka kennara. Við komum ekki í veg fyrir að sumir vinni störf sín illa með þessu móti, nær væri að ráða eingöngu vel menntað fólk og veita því stuðning í starfi.

Aðrir telja að prófin haldi uppi kröfum. En samræmd próf hafa ekkert með miklar kröfur að gera. Þau gera þröngar kröfur um færni í gagnslitlum atriðum. Þau halda kröfunum niðri, vegna þess að það er ekki hægt að mæla á prófi þá hluti sem mikilvægastir eru í menntun. Þú leggur ekki tölulegt mat á sköpunargáfu, gagnrýna hugsun, hvað þá siðferði, gleði eða frumkvæði. Allar tilraunir til að koma slíkum hlutum inn í samræmd próf eru dæmdar til að mistakast. Það er ekki hægt að prófa þessi atriði, því það er ekki hægt að skilgreina útkomur, viðmið og „hvað á að læra fyrir prófið“. Eftir því sem verkefnið er betur skilgreint, því minni verður sköpunin.

Þriðja atriðið sem ég heyri er að prófin séu nauðsynleg til að framhaldsskólar geti valið inn nemendur. En hvers vegna í ósköpunum ættu grunnskólar að miða starf sitt við að viðhalda ákveðinni skiptingu nemenda milli tiltekinna skóla. Er grunnskólinn í vinnu hjá MR, MH og Versló? Hvaða ávinning hefur samfélagið af því að nemendur hópist í skóla eftir einkunnum á grunnskólaprófi? Af hverju ættu framhaldsskólar að fá að velja inn nemendur eftir einkunnum? Er það eitthvert keppikefli fyrir þá? Eru sumir framhaldsskólar „betri“ en aðrir? Er æskilegt að svo sé?

 

 

 

 

En hvers vegna eru prófin svona skaðleg? Er ekki allt í lagi að halda þau, og hafa þau með, til hliðar við allt metnaðarfulla, þroskandi og skapandi skólastarfið? Svarið við þessu er nei. Prófin skemma bæði nemendur og kennara. Svo lengi sem dómur um námsárangur hangir yfir, sem byggður er á prófi, þá miðast skólastarfið við það próf. Sérstaklega ef sá dómur hefur einhverja þýðingu fyrir framtíð nemenda – eins og nú er, og hefur verið.

Nemendum lærist til dæmis að það að kunna stærðfræði sé að geta leyst stöðluð skólaverkefni sem reyna ekki á neitt nema getu til að fara eftir reglum. Þeir læra ekki að meta sjálfir hvernig þeim gengur heldur að aðrir þurfi að segja þeim það, út frá árangri á prófi. Þeir læra að lærdómur sé eitthvað sem maður gerir fyrir próf, ekki að hann hafi gildi í sjálfu sér. Allir kennarar hafa heyrt ótal sinnum spurningar eins og „kemur þetta á prófi?“, „hver semur prófið?“, „er dregið niður fyrir þetta á prófi?“ og jafnvel „hver fer yfir prófið?“ Ef athygli nemenda er á þessu, þá er hún ekki á því að greina, skapa eða njóta. Eiginlega er ekkert rými fyrir neina raunverulega hugsun.

Það að flokka fólk eftir árangri á prófum við lok grunnskóla skaðar samfélag nemenda innbyrðis og tengsl þeirra við kennarann. Þegar framtíð veltur á gengi á prófum er í raun um samkeppni að ræða, milli nemenda og milli skóla. Það er kominn tími til að við hugum að því sem við getum saman – samkeppni er ágæt milli kjörbúða, en á öðrum sviðum er samvinna betri.

Við þetta má bæta að rannsóknir í bæði sálfræði benda til þess að nemendur sýni minni áhuga á því að læra ef þeir fá einkunnir fyrir verk sín, einkunnagjöf leiðir til þess að nemendur vilja síður glíma við krefjandi verkefni, og hún hefur neikvæð áhrif á skapandi hugsun. Rannsóknir í heilafræðum sýna svo að það er manneskju mjög erfitt að læra ef hún er kvíðin, stressuð, eða einhver ógn steðjar að henni. Slíkar tilfinningar hreinlega loka á hugsun, enda erum við harðvíruð til að bregðast við ógn með því að hlaupa burt, heilinn eyðir ekki tíma í hugsun þegar flýja þarf frá ljóni.

Þeir sem hafa áhyggjur af metnaðar – eða kröfuleysi ættu að fara hugsa um hvað það er sem þeir vilja að börnin geri í skólanum frekar en að tala um samræmd próf. Eru börnin að fást við krefjandi verkefni? Fá þau að vera skapandi og gagnrýnin? Fá þau að bera ábyrgð á sínu eigin námi? Er gleðin við völd? Fá þau að upplifa fegurð? Fá þau að hugsa? Fylgjast kennarar vel með því hvað nemendur geta, skilja og kunna?

Þetta er ekki lítil spurning um próf eða ekki próf. Þetta er spurning um það hvað það er að læra og hvað er þess virði að læra. Hvernig fólk viljum við útskrifa? Viljum senda frá okkur sjálfsöruggt, sjálfstætt, gott og hamingjusamt fólk? Viljum við að nemendur fari frá okkur full af fróðleiksþorsta, skapandi og greinandi í hugsun, fólk sem er ekki hrætt við að tjá sig? Eða er þetta bara ekki verkefni skólanna? Það er ekki hægt að tryggja eða þvinga að fólk þroskist með þessum hætti, en eru skólar landsins hugsaðir sem samfélög þar sem þessi gildi eru lífvænleg og líkleg til að ná inn í líf nemenda? Eða erum við bara að þjálfa hunda?

Birt á Kistunni, 18. nóvember 2009, Ásgeir H. Ingólfsson valdi myndirnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>